Dagur Dan Þórhallsson og samherjar hans í Orlando City eru úr leik í úrslitakeppninni um bandaríska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir tap á heimavelli, 2:0, gegn Columbus Crew í framlengdum leik í átta liða úrslitunum í nótt.
Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma en skömmu áður en honum lauk missti Orlando mann af velli með rautt spjald. Columbus nýtti sér liðsmuninn í framlengingunni og tryggði sér sigurinn með mörkum frá Cristian Ramirez og Juan Hernández.
Dagur lék allan leikinn og framlenginguna með Orlando en hann spilaði 33 af 37 leikjum liðsins í deildinni á tímabilinu og átti fast sæti í byrjunarliðinu í seinni hluta þess.
Columbus Crew mætir Cincinnati í undanúrslitunum en hin tvö einvígin eru óútkljáð og ráðast í kvöld og nótt. Þá leika Þorleifur Úlfarsson og félagar í Houston Dynamo við Sporting Kansas City og Seattle Sounders mætir Los Angeles FC.