Sá rautt í 29. skipti

Sergio Ramos fær rautt spjald fyrir grófa tæklingu í dag.
Sergio Ramos fær rautt spjald fyrir grófa tæklingu í dag. AFP

Real Sociedad hafði betur gegn Sevilla í 14. umferð spænsku 1. deildarinnar í dag. Það hefur lítið gengið upp hjá Sevilla á tímabilinu en liðið situr í 15. sæti deildarinnar með 12 stig.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Sevilla-menn þar sem markvörður liðsins varð fyrir því óláni að sparka boltanum í eigið net eftir að hafa varið aukaspyrnu frá Ander Barrenetxea. Á 22. mínútu leiksins tvöfaldaði framherjinn Sadiq svo forystuna fyrir Real Sociedad með stórbrotnu skoti, 30 metrum frá markinu.

En-Nesyri minnkaði svo muninn fyrir Sevilla á 60. mínútu og stefndi í fjörugar lokamínútur en vonin varð að engu þegar Sergio Ramos, varnarmaður Sevilla, fékk sitt 29. rauða spjald á ferlinum eftir grófa tæklingu. Jesús Navas liðsfélagi hans ákvað að mótmæla ákvörðuninni og fékk sjálfur að líta rauða spjaldið fyrir mótmælin.

Ekki urðu fleiri mörk í leiknum og lokatölur voru því 2:1 og Real Sociedad er komið í fimmta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert