Stórleikur helgarinnar í ítölsku A-deild karla í knattspyrnu fór fram í kvöld er Juventus tók á móti Inter Milanó. Liðin skildu jöfn 1:1 og Inter Milanó er því áfram á toppi deildarinnar með 32 stig, tveimur stigum á undan Juventus í öðru sætinu.
Leikurinn var virkilega jafn nánast allar nítíu mínúturnar en Vlahovic skoraði fyrsta mark leiksins á 27. mínútu og kom Juventus í 1:0. Það tók Inter einungis sex mínútur að jafna metin en þar var framherjinn Lautaro Martinez á ferðinni enn á ný en hann er markahæstur í ítölsku deildinni með 13 mörk í jafnmörgum leikjum.
Niðurstaðan er eflaust meiri vonbrigði fyrir Juventus, þar sem sigur í dag hefði komið þeim upp í fyrsta sæti deildarinnar.