Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson var fjarri góðu gamni um helgina þegar lið hans Genoa tapaði gegn Frosinone á útivelli í ítölsku A-deildinni.
Albert, sem er 26 ára gamall, er að glíma við meiðsli en hann hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu.
Alberto Gilardino, þjálfari liðsins, sagði á blaðamannafundi eftir leikinn að Íslendingurinn yrði að öllum líkindum fjarverandi um næstu helgi líka þegar Genoa tekur á móti Empoli í 14. umferð deildarinnar.
Genoa er með 14 stig í 15. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti, en Albert hefur skorað fimm mörk í 12 deildarleikjum á tímabilinu.
Þá hefur hann skorað tvö mörk í tveimur leikjum í bikarkeppninni en hann gekk til liðs við félagið frá AZ Alkmaar í Hollandi í janúar árið 2022.