Ancelotti áfram á Spáni?

Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. AFP/Thomas Coex

Forráðamenn knattspyrnufélagsins Real Madrid á Spáni ætla að bjóða stjóranum Carlo Ancelotti nýjan samning hjá félaginu.

Það er spænski miðillinn Relovo sem greinir frá þessu en Ancelotti, sem er 64 ára gamall, verður samningslaus í spænsku höfuðborginni að tímabilinu loknu.

Ancelotti snéri aftur til Real Madrid sumarið 2021 og varð liðið Spánar- og Evrópumeistari undir hans stjórn árið 2022 og þá gerði hann liðið að bikarmeisturum á síðustu leiktíð.

Hann hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá brasilíska karlalandsliðinu að undanförnu en hann hefur einnig stýrt stórliðum á borð við Juventus, AC Milan, Chelsea, París SG og Bayern München á ferlinum.

Real Madrid situr sem stendur á toppi spænsku 1. deildarinnar með 35 stig, stigi meira en Girona sem er í öðru sætinu, og fjórum stigum meira en ríkjandi Spánarmeistarar í Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert