Þorleifur Úlfarsson og samherjar hans í Houston Dynamo eru komnir í undanúrslitin um bandaríska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir sigur á Sporting Kansas City, 1:0, í átta liða úrslitunum í Houston í nótt.
Franco Escobar skoraði sigurmark Houston á 39. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Hector Herrera og liðið mætir nú Los Angeles FC í undanúrslitunum. Í hinni viðureigninni mætast Columbus Crew og Cincinnati.
Þorleifur sat allan tímann á varamannabekk Houston í leiknum í nótt.