Signe Bruun, leikmaður Real Madrid, hefur dregið sig út úr danska landsliðshópnum í knattspyrnu fyrir leikina gegn Þýskalandi og Íslandi í Þjóðadeildinni 1. og 5. desember.
Bruun, sem er 25 ára framherji, hefur skorað 18 mörk í 39 landsleikjum fyrir Dani sem slást við Þjóðverja um sigur í riðlinum og sæti í undanúrslitum keppninnar, sem jafnframt gefur möguleika á sæti á Ólympíuleikunum í París.
Danir hafa í staðinn kallað inn annan leikmann frá Real Madrid, Caroline Möller, en hún er líka framherji, 24 ára gömul, og á 11 landsleiki að baki.
Danska liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína í riðlinum en það mætir Þjóðverjum í Rostock 1. desember og Íslendingum í Viborg 5. desember.