Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlaliðs Jamaíku í knattspyrnu, hefur reynt að sannfæra Mason Greenwood um að spila fyrir landslið Jamaíku í komandi framtíð.
Frá þessu greindi þjálfarinn í útvarpsþætti fótbolta.net um helgina en Greenwood, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Manchester United en leikur núna með Getafe á láni.
Greenwood á að baki einn A-landsleik fyrir England en hann á ættir að rekja til Jamaíku.
„Ég hef bara sagt að ef hann vill koma, þá hef ég ekkert á móti því,“ sagði Heimir í útvarpsþætti fótbolta.net.
„Eins og allir þjálfarar þá vil ég vera með bestu leikmennina í liðinu mínu. Svo er það bara annarra að taka ákvörðun með það.
Ég hef heyrt í honum, já. Ég myndi segja að hann sé að skoða þetta, liggur undir feldi,“ sagði Heimir meðal annars en hann tók við þjálfun Jamaíka í september 2022.