Ciro Immobile fór mikinn fyrir Lazio þegar liðið hafði betur gegn Celtic í E-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í Róm á Ítalíu í kvöld.
Leiknum lauk með sigri Lazio, 2:0, en Immobile skoraði bæði mörk Lazio á 82. mínútu og 85. mínútu.
Lazio er með 10 stig í efsta sæti riðilsins en Celtic er í neðsta sætinu með 1 stig. Síðar í kvöld mætast Feyenoord og Atlético Madrid í Hollandi en takist Atlético Madrid að vinna er Lazio komið áfram í 16-liða úrslit keppninnar.
Mykola Matviyenko reyndist hetja Shakhtar Donetsk þegar liðið tók á móti Royal Antwerp í H-riðli keppninnar Hamburg í Þýskalandi.
Matviyenko skoraði sigurmark Shakhtar Donetsk strax á 12. mínútu í 1:0-sigri úkraínska liðsins.
Shakhtar Donetsk er með 9 stig í þriðja sæti riðilsins, líkt og Barcelona og Porto sem mætast í kvöld á Spáni, en Royal Antwerp er án stiga í neðsta sætinu.