Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur ákveðið að taka dómaraverkefni af Pólverjanum Tomasz Kwiatkowski, sem var VAR-dómari í leik Parísar SG og Newcastle United í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.
Kwiatkowski leiðbeindi Szymon Marciniak að skoða VAR-skjáinn í uppbótartíma sem varð til þess að sá síðarnefndi dæmdi umdeilda vítaspyrnu.
PSG skoraði úr henni og jafnaði metin í 1:1.
BBC Sport greinir frá því að Kwiatkowski hafi átt að sinna VAR-dómgæslu í leik Real Sociedad og Red Bull Salzburg í Meistaradeildinni í kvöld en að ákvörðun hafi verið tekin um að láta hann ekki sinna því verkefni.
Það virðist renna stoðum undir það að UEFA sé á því að Kwiatkowski hafi gert mistök, þó sambandið sé ekki búið að senda frá sér formlega yfirlýsingu vegna málsins.