Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, var óánægður með vítaspyrnuna sem París SG fékk og jafnaði metin úr á áttundu mínútu uppbótartíma í leik liðanna í F-riðli Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.
Newcastle var 1:0 yfir allt þar til Szymon Marciniak dæmdi umdeilda vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að hafa ráðfært sig við VAR-skjáinn. Tino Livramento fékk þá fyrirgjöf í magann þaðan sem boltinn fór í olnboga hans og hendi var dæmd.
„Ég er enn að reyna að sætta mig við þetta. Það er mikill doði yfir mér en á sama tíma er ég hæstánægður með framlag leikmanna. Heilladísirnar voru með okkur í liði en þær yfirgáfu okkur undir lokin.
Mér fannst þetta ekki vera vítaspyrna. Það sem er ekki tekið með í reikninginn í þessum endursýningum er hversu hratt boltinn fer. Boltinn fer fyrst í bringuna á honum.
Ef boltinn hefði farið fyrst í höndina á honum þá hefði það samt ekki verið vítaspyrna því leikmaðurinn er svo nálægt honum. En það er hægt að færa meiri rök fyrir því.
Þetta er ekki vítaspyrna þegar boltinn fer fyrst í bringuna á honum og svo í höndina, sem er nálægt líkamanum. Ég get augljóslega ekki sagt hvað ég er að hugsa því þá myndi ég lenda í vandræðum.
Mér fannst dómarinn hafa dæmt vel allt til þessa augnabliks. Hann hafði verið sterkur,“ sagði Howe á fréttamannafundi eftir leikinn í gærkvöldi.