FC Kaupmannahöfn náði frábæru jafntefli gegn Bayern München í Bæjaralandi í kvöld, 0:0, þegar liðin mættust þar í fimmtu og næstsíðustu umferð riðlakeppninnar í Meistaradeild karla í fótbolta.
Orri Steinn Óskarsson kom inn á hjá FCK 60. mínútu og komst ágætlega frá sínu.
Heimamenn voru með boltann 62% tímans en fengu ekkert mikið fleiri færi en gestirnir frá Kaupmannahöfn.
Fyrr í dag gerði Manchester United jafntefli, 3:3, við Galatasary í Istanbul. Því er allt opið fyrir liðin þrjú að fylgja Bayern í 16-liða úrslitin að viku liðinni. Bayern er með 13 stig á toppi riðilsins en FC Kaupmannahöfn og Galatasaray 5 stig en Manchester United 4 stig.
FC Kaupmannahöfn tekur á móti Galatasaray í lokaumferðinni en Manchester United á móti Bayern München.
Í B-riðli fór Arsenal létt með Lens frá Frakklandi á heimavelli sínum Emirates í Lundúnum. Það er skemmst frá því að segja að Arsenal skoraði sex mörk gegn engu marki gestanna og markaskorar Lundúnaliðsins voru jafn margir og mörkin.
Kai Havertz, Gabriel Jesus, Bukayo Saka, Gabriel Martinelli, Martin Ødegaard og Jorginho skoruðu mörk heimamanna.
Fyrr í kvöld lagði PSV Eindhoven lið Sevilla á útivelli 3:2 eftir að hafa lent 2:0 undir. Lucas Ocampos fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili og þar með rautt. PSV gekk á lagið og skoraði þrjú.
Sevilla getur bjargað andlitinu með sigri á útivelli gegn Lens í lokaumferðinni og komið sér þannig í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Arsenal og PSV eru komin áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Real Madrid lagði Napoli 4:2 í C-riðli með mörkum frá Rodrygo, Bellingham, Paz og Joselu. Mörk Napoli skoruðu Simeone og Anguissa.
Real Madrid er komið áfram í 16-liða úrslit með 15 stig á toppi riðilsins. Napoli er í góðri stöðu og dugar stig á heimavelli í lokaumferðinni gegn Braga. Union Berlin á einnig enn möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar með sigri á Real Madrid á heimavelli í næstu viku.
Í D-riðli kom Joao Mário Benfica í 3:0 gegn Inter í Lissabon með frábærri þrennu gegn sínum gömlu félögum. Inter náði þó að jafna með mörkum frá Arnautovic, Frattesi og Alexis Sánchez í seinni hálfleik.
Þá gerðu Real Sociedad og RB Salzburg markalaust jafntefli.
Real Sociedad og Inter eru komin áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar en Benfica þarf sigur gegn RB Salzburg í lokaumferðinni til að setja Austurríkismennina niður fyrir sig og komast í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.
Úrslit dagsins:
17.45 Galatasaray - Manchester United 3:3
20.00 Bayern München - FC Köbenhavn 0:0
Staðan: Bayern 13, Köbenhavn 5, Galatasaray 5, Manchester United 4.
17.45 Sevilla - PSV Eindhoven 2:2
20.00 Arsenal - Lens 6:0
Staðan: Arsenal 12, PSV 8, Lens 5, Sevilla 2.
20.00 Real Madrid - Napoli 4:2
20.00 Braga - Union Berlín 1:1
Staðan: Real Madrid 15, Napoli 7, Braga 4, Union Berlín 2.
20.00 Benfica - Inter Mílanó 3:3
20.00 Real Sociedad - Salzburg 0:0
Staðan: Real Sociedad 11, Inter Mílanó 11, Salzburg 4, Benfica 1.