Fullkomin endurkoma PSV á Spáni

Yorbe Vertessen fagnar marki PSV í kvöld.
Yorbe Vertessen fagnar marki PSV í kvöld. AFP/Cristina Quicler

Ricardo Pepi tryggði PSV ótrúlegan sigur gegn Sevilla þegar liðin mættust í B-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Spáni í kvöld.

Leiknum lauk með 3:2-sigri PSV en Pepi skoraði sigurmark leiksins þegar tvær mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Sergio Ramos kom Sevilla yfir á 24. mínútu og Youssef En-Nesyri tvöfaldaði forystu Sevilla í upphai síðari hálfleiks.

Lucas Ocampos fékk að líta sitt annað gula spjald í liði Sevilla á 66. mínútu og það reyndist dýrkeypt en hann fékk fyrra gula spjaldið á 63. mínútu.

Isamael Saibari minnkaði muninn á 68. mínútu, Nemanja Gudelj skoraði sjálfsmark á 81. mínútu og jafnaði þannig metin áður en Pepi skoraði sigurmarkið.

PSV er með 8 stig í öðru sæti riðilsins en Sevilla er í neðsta sætinu með 2 stig. Arsenal og Lens mætast svo í Lundúnum í hinum leik riðilsins í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert