Ótrúlegt jafntefli United í Tyrklandi

Bruno Fernandes fagnar stórkostlegu marki sínu í kvöld.
Bruno Fernandes fagnar stórkostlegu marki sínu í kvöld. AFP/Ozan Kose

Karem Aktürkoglu bjargaði stigi fyrir Galatasaray þegar liðið tók á móti Manchester United í A-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í Tyrklandi í dag.

Leiknum lauk með jafntefli, 3:3, en Aktürkoglu skoraði jöfnunarmark Galatasaray á 71. mínútu með frábæru skoti úr teignum.

Leikurinn fór mjög fjörlega af stað og Alejandro Garnacho kom United yfir strax á 11. mínútu með föstu skoti úr teignum áður en Bruno Fernandes tvöfaldaði forystu United með stórkostlegu langskoti af 30 metra færi.

Minnkuðu muninn úr aukaspyrnu

Hakim Ziech minnkaði muninn fyrir Galatasaray með marki úr aukaspyrnu á 29. mínútu en skotið fór í gegnum varnarvegg United og André Onana réð ekki við það.

Scott McTominay kom United tveimur mörkum yfir á nýjan leik á 55. mínútu eftir vel útfærða skyndisókn en Ziech var aftur á ferðinni fyrir Galatasaray á 62. mínútu þegar hann skoraði úr aukaspyrnu og aftur leit Onana ekkert sérstaklega vel út í markinu.

United setti mikla pressu á Tyrkina á lokamínútum leiksins og fékk nokkur góð tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn en inn vildi boltinn ekki og jafntefli því niðurstaðan.

Galatasaray er með 5 stig í öðru sæti riðilsins en United er í neðsta sætinu með 4 stig. Bayern München og Köbenhavn mætast svo síðar í kvöld í hinum leik riðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert