Alfreð snýr aftur til Augsburg

Alfreð Finnbogason lék með Augsburg frá 2016 til 2022.
Alfreð Finnbogason lék með Augsburg frá 2016 til 2022. Ljósmynd/Augsburg

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, snýr aftur til Augsburg á sunnudaginn kemur en hann lék með liðinu í þýsku 1. deildinni í sex og hálft ár áður en hann gekk til liðs við Lyngby í Danmörku í september 2022.

Þetta tilkynnti þýska félagið á samfélagsmiðlum sínum en Alfreð, sem er 34 ára gamall, fær þá tækifæri til þess að kveðja stuðningsmenn félagsins almennilega.

Augsburg tekur á móti Eintracht Frankfurt í 13. umferð þýsku 1. deildarinnar á sunnudaginn og má leiða að því líkur að Alfreð verði heiðursgestur á leiknum.

Vilja kveðja Íslendinginn almennilega

„Við bjóðum Alfreð Finnbogason, okkar markahæsta leikmann í efstu deild frá upphafi, velkominn aftur til félagsins á sunnudaginn,“ segir í tilkynningu Augsburg.

„Við viljum nýta tækifærið og kveðja Íslendinginn almennilega,“ segir ennfremur í tilkynningu þýska félagsins.

Alfreð lék með Augsburg frá 2016 til 2022 og skoraði alls 39 mörk fyrir félagið í 122 leikjum, þar af 37 mörk í þýsku 1. deildinni í 115 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert