Franska stórliðið lætur stjórann fara

Fabio Grosso hefur verið látinn taka pokann sinn.
Fabio Grosso hefur verið látinn taka pokann sinn. AFP/Fred Tanneau

Franska knattspyrnufélagið Lyon hefur vikið ítalska knattspyrnustjóranum Fabio Grosso frá störfum eftir afleitt gengi á tímabilinu.

Grosso tók við stjórnartaumunum hjá liðinu fyrir tveimur og hálfum mánuði, um miðjan september, en hefur allt gengið á afturfótunum á tímabilinu.

Vermir liðið botninn í frönsku 1. deildinni þar sem liðið er með aðeins 7 stig, fimm stigum frá öruggu sæti, og hefur einungis unnið einn af 12 leikjum sínum til þessa.

Má liðið sannarlega muna sinn fífil fegurri þar sem liðið hefur orðið Frakklandsmeistari sjö sinnum og verið tíður gestur í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni undanfarna áratugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert