Hákon Arnar Haraldsson og félagar í franska liðinu Lille eru öruggir með sæti í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar í fótbolta eftir sigur á Olimpija Ljubljana í Slóveníu í kvöld, 2:0.
Remy Cabella kom Lille yfir á 15. mínútu og lagði upp mark fyrir Yusuf Yazici á 75. mínútu. Strax eftir annað markið kom Hákon Arnar inn á sem varamaður hjá Lille. Hann fékk gula spjaldið 10 mínútum síðar og var svo nærri því að skora undir lokin en Denis Pintol í marki Olimpija varði skot hans.
Slovan Bratislava vann nauman sigur á KÍ Klaksvík í Þórshöfn í Færeyjum, 2:1, í hinum leik A-riðilsins. Mads Mikkelsen kom KÍ yfir en Jura Kucka svaraði með tveimur mörkum fyrir Slovan.
Lille er með 11 stig, Slovan 10, KÍ 4 og Olimpija 3 stig fyrir lokaumferðina. Sigurlið riðilsins fer beint í 16-liða úrslit en liðið í öðru sæti fer í umspil gegn einhverju þeirra liða sem enda í þriðja sæti í riðlum Evrópudeildar.
Í B-riðlinum vann Gent öruggan sigur á Zorya Luhansk frá Úkraínu, 4:1, í Belgíu. Gent er því með 13 stig, Maccabi Tel Aviv 12, Zorya 4 og Breiðablik ekkert en Gent og Maccabi mætast í hreinum úrslitaleik um sigur í riðlinum í lokaumferðinni 14. desember.
Aðrir leikir sem lokið er í kvöld:
Astana - Dinamo Zagreb 0:2
Breiðablik - Maccabi Tel Aviv 1:2
AZ Alkmaar - Zrinjski Mostar 1:0
Besiktas - Club Brugge 0:5
Bodö/Glimt - Lugano 5:2
Ballkani - Plzen 0:1
HJK Helsinki - Aberdeen 2:2