Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo stendur frammi fyrir hópmálsókn í Bandaríkjunum þar sem farið er fram á skaðabætur sem nema himinháum fjárhæðum.
Rafmyntafjárfestar krefja Ronaldo um rúmlega einn milljarð bandaríkjadala, sem nemur um 138,5 milljörðum íslenskra króna, fyrir hans þátt í að auglýsa Binance, stærstu rafmyntakauphöll heims.
Fjárfestarnir segja að vegna stuðnings Ronaldos við kauphöllina hafi þeir gert fjárfestingar sem hafi valdið þeim miklu fjárhagslegu tjóni.
Málið snýr að því að í nóvember á síðasta ári tilkynnti Binance um sérstakt samstarfsverkefni milli kauphallarinnar og Ronaldo þar sem fólki bauðst að kaupa stafræn skírteini, NFT, sem hluta af nýju safni merkt CR7, vörumerki Portúgalans.
NFT stendur fyrir „non-fungible token“ og er einstakt, stafrænt skírteini. Slíkt skírteini veitir handhafa þess eignarhald á þeim hugverkum sem um ræðir hverju sinni, hvort sem það eru myndir, myndbönd, hljóð eða önnur stafræn gögn.
Ódýrasta NFT sem hægt var að kaupa í CR7-safninu fyrir ári síðan kostaði 77 bandaríkjadali, um 10.700 íslenskar krónur. Ári síðar kostar ódýrasta NFT í safninu einn bandaríkjadal, 139 íslenskar krónur.
Rafmyntafjárfestarnir segja kynningu Ronaldos á Binance hafa leitt til 500 prósent aukningar á netleitum að kauphöllinni, sem hafi svo leitt til aukinnar fjárfestingar fólks á óskráðum verðbréfum.
Segja þeir að Ronaldo hefði átt að taka fram hvað hann fékk greitt fyrir að kynna Binance, sem hann hafi ekki gert.