Enska liðið Liverpool tryggði sér efsta sæti E-riðils Evrópudeildar karla í knattspyrnu með öruggum sigri á LASK frá Austurríki, 4:0, á Anfield-vellinum í Liverpool-borg í kvöld.
Heimamenn byrjuðu af krafti og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 12. mínútu. Joe Gomez átti þá góða fyrirgjöf frá hægri beint á kollinn á Luis Díaz sem stangaði boltann af miklum krafti í netið, algjörlega óverjandi fyrir Tobias Lawal í marki LASK.
Fjórum mínútum síðar var Liverpool svo búið að tvöfalda forystuna. Luis Díaz fékk boltann þá rétt fyrir utan teig og lagði hann út til hægri á Mohamed Salah. Hann gerði virkilega vel, kom sér upp að endamörkum og setti boltann þvert fyrir markið á Cody Gakpo sem var aleinn á fjærsvæðinu. Hann setti boltann auðveldlega í netið af stuttu færi.
Eftir annað markið róaðist leikurinn aðeins en heimamenn voru þó áfram með öll völd á vellinum. Eftir rúmlega hálftíma leik átti gríski bakvörðurinn Kostas Tsimikas bylmingsskot í þverslánna á marki LASK en gestirnir sluppu með skrekkinn.
Þegar seinni hálfleikur var um fimm mínútna gamall krækti Cody Gakpo svo í vítaspyrnu. Hann ætlaði sér þá að lauma boltanum á Luis Díaz inni á teignum en sendingin fyrir aftan Kólumbíumanninn. Gakpo var hins vegar snöggur að hugsa og náði að vera fyrstur á eigin sendingu áður en Tobias Lawal, markvörður LASK, sópaði undan honum löppunum. Á punktinn steig Mohamed Salah og skoraði af fádæma öryggi.
Fljótlega eftir þriðja mark heimamanna gerðu bæði lið breytingar og við það komst meiri kraftur í lið gestanna sem ógnuðu í nokkur skipti með góðum skyndisóknum. Það voru þó heimamenn sem áttu síðasta orðið en Cody Gakpo bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Liverpool í uppbótartíma. Trent Alexander-Arnold bar þá upp boltann og þræddi Gakpo í gegn vinstra megin, sem gerði frábærlega, setti boltann á hægri fótinn og hamraði honum svo í fjærhornið.
Í hinum leik riðilsins gerðu Toulouse og Royale Union markalaust jafntefli sem þýðir það að Liverpool er búið að tryggja sér efsta sæti riðilsins fyrir lokaumferðina. Liðið er með 12 stig eftir 5 leiki en Toulouse er með 8, Royale Union 5 og LASK 3.