Móðir knattspyrnukonunnar Maddy Cusack, fyrirliða Sheffield United sem lést í september, síðastliðnum, segir dóttur sína hafa glímt við fjárhagsáhyggjur áður en hún féll frá.
Faðir Cusack fann hana látna á heimili sínu þann 20. september síðastliðinn. Opinber dánarorsök hefur ekki verið gefin út en andlátið er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti.
Fjölskylda hennar hefur greint frá því að Cusack hafi þurft að vinna tvö störf til þess að ná endum saman. Vann hún sem markaðsstjóri hjá Sheffield United ásamt því að spila fyrir liðið í ensku B-deildinni.
„Á síðasta ári voru leikmennirnir í hlutastarfi hjá liðinu, sem þýðir að þeir voru allir í fullu starfi annars staðar samhliða því.
Þeir æfðu þrisvar í viku, spiluðu á sunnudögum og ferðuðust oft daginn áður, allt fyrir lágmarkslaun,“ sagði móðir Cusack, Deborah, í samtali við BBC.
„Ég held að Madeleine hafi fengið um 6.000 pund [rúma eina milljón íslenskra króna] í árslaun fyrir að spila fótbolta á síðasta ári. Þessar stelpur þurfa að sinna tveimur störfum.
Þær þurfa að æfa og haga sér eins og karlkyns íþróttamenn fyrir örlítinn hluta af þeim upphæðum sem þeir fá greiddar. Þetta er of mikið, pressan sem fylgir þessu er allt of mikil,“ bætti Deborah við.
Hún sagði dóttur sína hafa verið hamingjusama um síðustu jól en að í febrúar á þessu ári hafi eitthvað breyst.
„Hún hafði áhyggjur af ferli sínum í fótbolta því fótboltinn skipti hana öllu máli. Það að hún hafi upplifað það að ferli hennar væri ógnað með einhverjum hætti særði hana.
Það brast eitthvað innra með henni, það er besta leiðin til að lýsa þessu,“ sagði Deborah.