Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur, var ekki hrifinn af leik sinna manna þegar liðið gerði jafntefli við Galatasaray, 3:3, í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.
„Ég er ekki viss um að ég hafi séð svona leik áður, þetta var algjör geðveiki frá upphafi til enda. Þeir byrjuðu frábærlega og komust í 2:0 en svo vantar aga.
Það er mjög erfitt að vinna leiki á útivelli með þessum hætti. Þeir voru enn að leggja til atlögu og að reyna að skora mörk.
Þeir fengu vont mark á sig og það er augljóst að markvörðurinn átti slæmt kvöld. En svona vinnurðu ekki leiki í Evrópu. Ég hef aldrei séð lið fara á útivöll í Evrópu, spila bara sóknarleik og vinna leikinn,“ sagði Scholes er hann fjallaði um leikinn fyrir TNT Sports.
Man. United náði tveggja marka forystu í tvígang en glutraði henni niður.
„Þegar lið kemst í 2:0 og 3:1 þarf að einbeita sér að því að spila stöðurnar sínar, slakið bara á. Fyrir mér var þetta ekki nógu agað.
Mér finnst þetta ekki vera lið. Þeir spila ekki eins og lið. Það breytist ekkert og þeir gera ekkert neitt til þess að stemma stigu við því,“ bætti Scholes við.
Owen Hargreaves, annar fyrrverandi leikmaður Man. United og núverandi sparkspekingur, fjallaði sömuleiðis um leikinn á TNT Sports og benti á vandræði liðsins í varnarleiknum.
„Þeir voru við stjórn í leiknum. Þeir skoruðu þrjú mörk í München og töpuðu. Þeir skoruðu þrjú mörk í Kaupmannahöfn og töpuðu.
Þeir skoruðu þrjú mörk hér og gerðu jafntefli. Þeir eru að skora mörk en fá á sig léleg mörk á móti. Það má ekki í Evrópu,“ sagði Hargreaves.