Eyjakonan með þrennu í Þjóðadeildinni

Olga Sevcova hefur leikið með ÍBV í fjögur ár.
Olga Sevcova hefur leikið með ÍBV í fjögur ár. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Olga Sevcova, leikmaður ÍBV, fór á kostum með landsliði Lettlands í Þjóðadeild kvenna í fótbolta í dag þegar það tók á móti Andorra í C-deild keppninnar.

Olga skoraði þrennu á um það bil átta mínútna kafla auk þess að leggja upp fjórða mark Lettlands sem vann leikinn 4:0.

Olga skoraði fyrst á 42. mínútu og aftur á 45. mínútu en þriggja mínútna uppbótartími var síðan leikinn í fyrri hálfleik. Hún skoraði svo þriðja markið í byrjun síðari hálfleiks, á 47. mínútu, og lagði upp fjórða markið fyrir Anastasiju Poluhovicu á 67. mínútu.

Viktorija Zaicikova, samherji Olgu úr ÍBV, var í liði Letta, sem og Sandra Voitane, leikmaður Keflavíkur sem áður lék með ÍBV.

Olga hefur samið við ÍBV um að leika áfram með liðinu þó það hafi fallið úr Bestu deildinni í haust en hún leikur í vetur með Fenerbahce í Tyrklandi.

Lettland er í öðru sæti í 1. riðli C-deildar með 10 stig úr 5 leikjum og fer væntanlega í umspil um sæti í B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert