Þýskaland varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna Danmörk í þriðja riðli Þjóðadeildar kvenna í fótbolta, en Ísland vann 2:1-sigur á Wales í sama riðli í kvöld.
Var þýska liðið mun sterkara á heimavelli og vann sannfærandi 3:0-sigur. Alexandra Popp og Marina Hegering komu Þjóðverjum í 2:0 í fyrri hálfleik og Klara Bühl gulltryggði sigurinn með þriðja markinu í uppbótartíma.
Þýskaland og Danmörk eru nú jöfn í toppsætinu með tólf stig, Ísland í þriðja sæti með sex og Wales á botninum án stiga. Þýskaland mætir Wales á útivelli í lokaumferðinni og Danmörk og Ísland eigast við í Danmörku.