Nokkuð óvenjulegt atvik átti sér stað þegar HJK Helsinki og Aberdeen frá Skotlandi áttust við í G-riðli Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla í Finnlandi í gærkvöldi.
Leikurinn fór fram á snævi þöktum heimavelli HJK í Helsinki og ákváðu stuðningsmenn Aberdeen að nýta sér það til þess að koma markverði heimamanna, Niki Mäenpää, úr jafnvægi.
Stuðningsmenn Aberdeen voru fyrir aftan mark HJK í síðari hálfleiknum og köstuðu ítrekað í hann snjóboltum þegar Mäenpää bjó sig undir að taka markspyrnu í upphafi hálfleiksins.
Þegar leikmenn HJK sáu hvernig í pottinn var búið létu þeir dómara leiksins, Genc Nuza, vita og hann stöðvaði leikinn áður en hann ræddi við fjórða dómarann um hvað best væri að gera.
Nuza ræddi við Jonny Hayes, fyrirliða Aberdeen, og bað hann um að biðla til stuðningsmanna Aberdeen að hætta að kasta snjóboltum í Mäenpää, ellegar þyrfti hann að flauta leikinn af.
Vallarþulurinn tilkynnti einnig að leikurinn yrði flautaður af, létu stuðningsmenn Aberdeen ekki af hátterni sínu. Tóku þeir sönsum og höguðu sér vel það sem eftir var af leiknum.
Stöðva þurfti leikinn einu sinni til viðbótar þegar þrjú snjóruðningstæki komu inn á völlinn til þess að moka snjóinn af honum, en snjó kyngdi niður allan leikinn.
Lauk leiknum með jafntefli, 2:2, og eru bæði lið úr leik.