Lögregluþjónar særðust og stuðningsmönnum meinaður aðgangur

Pau Torres og Boubacar Kamara, leikmenn Aston Villa.
Pau Torres og Boubacar Kamara, leikmenn Aston Villa. AFP/Ben Stansall

Þrír lögregluþjónar særðust er stuðningsmenn pólska liðsins Legia Varsjá skutu flugeldum í þá fyrir leik þess gegn Aston Villa í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu karla í Birmingham á Englandi í gærkvöldi.

Daily Mail greinir frá því að stuðningsmenn Legia hafi verið ósáttir við hversu fáa miða félagið fékk úthlutað á Villa Park og sendi Legia frá sér formlega yfirlýsingu þar sem sú ákvörðun Aston Villa var gagnrýnd.

Lenti stuðningsmönnunum saman við lögreglu, sem hélt þeim á bílastæði fyrir utan leikvanginn. Varð það þess valdandi að ekki einn einasti stuðningsmaður Legia var mættur í áhorfendastúkuna þegar leikurinn hófst.

Vegna hegðunar þeirra var þeim svo ekki hleypt inn á leikvanginn allan leikinn. Tók forráðamenn Aston Villa ákvörðun um það eftir að hafa ráðfært sig við lögregluna í Vestur-Miðlöndum.

Lauk leiknum með 2:1-sigri Villa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert