Mögnuð endurkoma Englendinga

Ella Toone var hetja enska liðsins.
Ella Toone var hetja enska liðsins. AFP/Izhar Khan

England vann í kvöld 3:2-endurkomusigur á Hollandi á heimavelli í Þjóðadeild kvenna í fótbolta. Lineth Beerensteyn kom Hollandi í tveggja marka forystu með tveimur mörkum á fyrstu 35. mínútunum og var staðan í hálfleik 2:0.

Evrópumeistarar Englands neituðu hins vegar að gefast upp og Georgia Stanway minnkaði muninn á 58. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Lauren Hemp.

Þegar allt stefndi í jafntefli sá Ella Toone um að gera sigurmark Englands í uppbótartíma. Liðin eru nú jöfn með níu stig hvort á toppi riðilsins, einu stigi á undan Belgíu, sem gerði jafntefli gegn Skotlandi á heimavelli, 1:1.

Í fjórða riðli vann Sviss annars vegar 1:0-heimasigur á Svíþjóð og hins vegar vann Ítalía gríðarlega sterkan 3:2-útisigur á heimsmeisturum Spánar. Þar sem Svíþjóð tapaði hefur Spánn tryggt sér sigur í riðlinum, þrátt fyrir tap.

Valentina Giacinti skoraði fyrir Ítalíu gegn heimsmeisturunum.
Valentina Giacinti skoraði fyrir Ítalíu gegn heimsmeisturunum. AFP/Marty Melville

Valentina Giacinti, Michela Cambiaghi og Elena Linari gerðu mörk Ítalíu. Athenea del Castillo og Esther González skoruðu fyrir Spánn. Ana-Maria Crnogorcevic skoraði sigurmark Sviss gegn Svíþjóð.

Loks vann Frakkland 3:0-heimasigur á Austurríki í riðli tvö og tryggði sér toppsæti riðilsins í leiðinni. Amandine Henry, Eugénie Le Sommer og Marie-Antoinetta Katoto gerðu mörk franska liðsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert