Kanadíska knattspyrnufélagið CF Montréal tilkynnti í dag að varnarmaðurinn Róbert Orri Þorkelsson yrði áfram í röðum þess.
Samningur Róberts, sem kom til félagsins frá Breiðabliki sumarið 2021, var runninn út en félagið ákvað að framlengja við hann.
CF Montréal leikur í bandarísku MLS-deildinni og endaði í 10. sæti Austurdeildar á nýliðnu tímabili, tveimur stigum frá því að komast í úrslitakeppnina.
Róbert, sem er 21 árs gamall, hefur ekki unnið sér fast sæti í liðinu. Hann lék aðeins 9 af 34 leikjum liðsins í deildinni í ár, tvo þeirra í byrjunarliði, en missti af síðustu tólf leikjunum vegna meiðsla. Tímabilið 2022 lék hann 11 leiki, alla sem varamaður.
Róbert hefur verið fyrirliði 21-árs landsliðsins og á 15 leiki að baki með því en missti af fjórum síðustu leikjum ársins vegna meiðsla. Þá hefur hann leikið fjóra A-landsleiki, tvo þeirra í janúar á þessu ári, vináttuleiki gegn Eistlandi og Svíþjóð.