Birkir skoraði í sigri

Birkir Bjarnason skoraði mark, annan leikinn í röð í kvöld.
Birkir Bjarnason skoraði mark, annan leikinn í röð í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Bjarnason, leikjahæsti landsliðsmaður Íslands, skoraði í sigri Brescia á Sampdoria, 3:1, í ít­ölsku B-deild­inni í knattspyrnu í kvöld.

Alexander Jallow skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Brescia eftir aðeins tíu mínútur og Gennaro Borrelli skoraði svo annað mark liðsins á 34. mínútu. 

Birkir skoraði svo þriðja mark Brescia í fyrri hálfleik eftir stoðsendingu frá Nicolas Galazzi og staðan var því 3:0 þegar flautað var til hálfleiks.

Simone Giordano skoraði eina mark Sampdoria í leiknum, sem var eina markið í seinni hálfleik og leiknum lauk 3:1.

Brescia er í 11. sæti deildarinnar með 18 stig eftir 15 leiki spilaða og Sampdoria í 14. sæti með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert