Arnar Gunnlaugsson og Jóhannes Karl Guðjónsson koma báðir til greina sem næstu þjálfarar sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping.
Báðir hafa þeir átt í viðræðum við forráðamenn sænska félagsins um að taka að sér þjálfun liðsins en Arnar stýrir Íslands- og bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík en Jóhannes Karl er aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins.
Sænski miðillinn Expressen greinir frá því að Svíinn Peter Wettergren komi einnig til greina sem næsti þjálfari Norrköping en hann hefur verið aðstoðarþjálfari sænska karlalandsliðsins frá árinu 2016.
Í frétt miðilsins kemur meðal annars fram að valið standi milli þessara þriggja þjálfara og að þeir muni að öllum líkindum setjast niður með forráðamönnum Norrköping í vikunni þar sem þjálfararnir geta komið sínum hugmyndum enn frekar á framfæri.
Norrköping hafnaði í níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og er í leit að nýjum þjálfara eftir að Dananum Glen Riddersholm var sagt upp störfum eftir tímabilið.