Kólumbíski sóknarmaðurinn Duvan Zapata hrellti sína gömlu félaga í Atalanta þegar hann skoraði tvívegis fyrir Torino í 3:0-sigri í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Zapata braut ísinn um miðjan fyrri hálfleik áður en Antonio Sanabria tvöfaldaði forystu heimamanna á 56. mínútu.
Zapata kórónaði svo leik sinn með öðru marki sínu og þriðja marki Torino í uppbótartíma venjulegs leiktíma.
Torino fór með sigrinum upp í tíunda sæti deildarinnar, þar sem liðið er nú með 19 stig.
Atalanta er rétt fyrir ofan, með 20 stig í áttunda sæti, og hefði með sigri í kvöld getað komið sér upp í sjötta sæti.