Sverrir Ingi Ingason og liðsfélagar hans í Midtjylland komu sér á topp dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með öruggum sigri á Viborg, 5:1, í kvöld.
Sverrir Ingi lék allan leikinn í miðri vörn Midtjylland.
Viborg náði forystunni eftir hálftíma leik en Cho Gue-Sung jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Áður en fyrri hálfleikur var úti var Dario Osorio búinn að snúa taflinu við og staðan var því 2:1 í leikhléi.
Í síðari hálfleik gekk Midtjylland á lagið og bætti við þremur mörkum. Henrik Dalsgaard og Ola Brynhildsen komust á blað auk þess sem Gue-Sung skoraði annað mark sitt.
Með sigrinum fór Midtjylland í efsta sæti deildarinnar þar sem liðið er með 36 stig, tveimur fyrir ofan Bröndby í öðru sæti og þremur fyrir ofan Danmerkurmeistara FC Köbenhavn í þriðja sæti.