Fjórir mögulegir mótherjar Íslands í umspilinu um sæti í A-deild undankeppni EM kvenna í knattspyrnu 2025 eru komnir á hreint.
Leikjum í B-deild Þjóðadeildar kvenna var að ljúka en liðin fjögur sem enda í öðru sæti riðlanna fjögurra þar mæta þeim fjórum liðum úr A-deild sem enduðu í þriðja sæti riðlanna í umspilinu.
Ungverjaland náði öðru sæti A-riðils af Norður-Írlandi í kvöld, vann Albaníu 6:0 á meðan Norður-Írland steinlá 6:1 fyrir grönnum sínum á Írlandi.
Króatía náði öðru sæti B-riðils af Slóvakíu, sem gerði jafntefli, 2:2, við Finna. Á meðan vann Króatía útisigur gegn Rúmeníu, 1:0, og hreppti annað sætið.
Serbía hafnaði í öðru sæti C-riðils en það var á hreinu fyrir leiki kvöldsins. Serbar töpuðu 0:1 á heimavelli fyrir Úkraínu en það kom ekki að sök.
Bosnía hafnaði í öðru sæti D-riðils eftir heimasigur gegn Hvíta-Rússlandi, 1:0. Bosnía gat unnið riðilinn en það gerðu Tékkar með öruggum sigri á Slóvenum, 4:0.
Ungverjaland, Króatía, Serbía og Bosnía eru því liðin fjögur sem Ísland getur mætt í umspilinu dagana 21.-28. febrúar en dregið verður á mánudaginn kemur.
Það voru Írland, Finnland, Pólland og Tékkland sem unnu riðla B-deildar og tryggðu sér með því sæti í A-deildinni.