Ísak Bergmann Jóhannesson landsliðsmaður í knattspyrnu hafði góð áhrif á lið Düsseldorf þegar það vann góðan útisigur á Magdeburg, 2:1, í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld.
Magdeburg var með forystu, 1:0, frá 15. mínútu leiksins. Ísak hóf leik á varamannabekknum en kom inn á hjá Düsseldorf á 70. mínútu.
Á 87. mínútu lagði Ísak upp jöfnunarmark fyrir Jonah Niemiec, 1:1, og í uppbótartímanum skoraði Niemiec aftur, og líka eftir sendingu Ísaks, og tryggði Düsseldorf sæti í átta liða úrslitunum.