Lagerbäck hvetur Svía til að ráða Heimi

Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck á góðri stundu.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck á góðri stundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnuþjálfarinn Lars Lagerbäck ræddi þjálfaramál sænska karlalandsliðsins í hlaðvarpsþættinum Blue future á dögunum.

Lagerbäck, sem er 75 ára gamall, stýrði sænska landsliðinu frá 2000 til 2009 en hann var áður aðstoðarþjálfari landsliðsins í eitt ár.

Nánast upp úr engu

Svíar eru í þjálfaraleit eftir að Janne Andersson lét af störfum þar sem Svíum mistókst að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar.

„Ef ég ætti að þora að mæla með einhverjum þjálfara í landsliðsþjálfarastarf Svía er það Heimir Hallgrímsson,“ sagði Lagerbäck en hann og Heimir unnu saman hjá íslenska karlalandsliðinu og komu liðinu saman í lokakeppni Evrópumótsins árið 2016.

„Hann þjálfaði í Katar í fjögur ár, hjá sama félaginu, og það er einhverskonar kraftaverk. Hann kom Íslandi á HM og núna er Jamaíka komið í undanúrslit Þjóðadeildar Mið- og Norður-Ameríku, nánast upp úr engu,“ sagði Lagerbäck.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert