Stórsigur Englands dugði ekki til

Damaris Egurrola og Lauren James skoruðu báðar tvívegis fyrir þjóðir …
Damaris Egurrola og Lauren James skoruðu báðar tvívegis fyrir þjóðir sínar í kvöld. AFP/Glyn Kirk

England vann gífurlega öruggan sigur á nágrönnum sínum í Skotlandi, 6:0, þegar liðin áttust við í lokaumferð riðils 1 í Þjóðadeild UEFA í Glasgow í kvöld.

Enska liðið þurfti að vinna stórt og treyst á hagstæð úrslit í leik toppliðs Hollands, sem var fyrir leikinn með fjögur mörk í plús en England eitt mark í plús.

Svo fór hins vegar ekki þar sem Holland vann Belgíu örugglega, 4:0, og tryggði sér þannig efsta sætið í riðlinum og um leið sæti á Ólympíuleikunum í París næsta sumar.

Munurinn var að lokum aðeins eitt mark þar sem Holland var með markatöluna 14:6 og England með markatöluna 15:8.

Í leik Englands og Skotlands skoraði Lauren James tvívegis fyrir Englendinga auk þess sem Alex Greenwood, Beth Mead, Fran Kirby og Lucy Bronze komust á blað.

Í leik Hollands og Belgíu skoraði Lineth Beerensteyn tvívegis og Damaris Egurrola sömuleiðis tvívegis í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Síðasta mark Englands kom einnig í uppbótartíma og því nokkrar sveiflur og dramatík undir lokin í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert