Danska knattspyrnufélagið Viborg hefur rætt við íslenska knattspyrnuþjálfarannn Frey Alexandersson um möguleikann á því að taka við stjórnartaumunum hjá karlaliðinu.
Danski miðillinn Bold.dk greinir frá.
Freyr er þjálfari karlaliðs Lyngby og hefur verið frá sumrinu 2021.
Hefur hann vakið athygli fyrir frábæran árangur með liðið þar sem Freyr stýrði því upp úr dönsku B-deildinni á sínu fyrsta tímabili og bjargaði liðinu frá falli úr úrvalsdeildinni með lygilegum hætti á því síðasta.
Lyngby er sem stendur í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar með 20 stig og Viborg er sæti neðar með 19 stig.
Viborg hefur verið í leit að nýjum þjálfara eftir að Jacob Friis ákvað að taka við stöðu aðstoðarþjálfara hjá þýska liðinu Augsburg fyrir mánuði síðan.
Aðstoðarþjálfari Friis, Jakob Poulsen, hefur stýrt liði Viborg í undanförnum fjórum leikjum og er áhugasamur um að taka alfarið við þjálfarastöðunni.
Samningur Freys við Lyngby rennur út sumarið 2025.