Guðmundur Þórarinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, og liðsfélagar hans í OFI Krít höfðu betur gegn Ögmundi Kristinssyni og félögum í Kifisias, 3:1, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum grísku bikarkeppninnar í kvöld.
Staðan var 2:1 í leikhléi áður en heimamenn frá Krít bættu við þriðja marki sínu stundarfjórðungi fyrir leikslok.
OFI Krít fer því með tveggja marka forystu til Aþenu þar sem síðari leikurinn fer fram í janúar á næsta ári.
Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn í vinstri bakverði hjá OFI Krít og Ögmundur varði mark Kifisias.
Fyrr í dag gerðu Larissa og Atromitos 1:1-jafntefli í fyrri leik sínum í 16-liða úrslitunum.
Samúel Kári Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Atromitos að þessu sinni þar sem hann er með kórónuveiruna.