Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson og liðsfélagar hans í Silkeborg gerðu frábæra ferð til Kaupmannahafnar og lögðu þar FC Köbenhavn að velli, 2:0, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.
Silkeborg náði forystunni skömmu fyrir leikhlé og Stefán Teitur lagði svo upp annað markið fyrir Anders Klynge eftir rúmlega klukkutíma leik.
Stefán Teitur var svo tekinn af velli á 84. mínútu.
Orri Steinn Óskarsson lék fyrri hálfleikinn í liði FC Köbenhavn.
Síðari leikur liðanna fer fram í Silkeborg strax á laugardaginn.