Knattspyrnumaðurinn Elías Már Ómarsson snýr aftur á völlinn í kvöld en hann er í leikmannahópi Breda í hollensku B-deildinni í fyrsta skipti á þessu tímabili.
Elías fór í uppskurð á hné í sumar og gert var ráð fyrir að hann yrði frá keppni til áramóta. Hann er hins vegar í hópnum hjá Breda sem tekur á móti Oss klukkan 19 að íslenskum tíma.
Elías kom til Breda frá Nimes í Frakklandi í janúar á þessu ári og var gríðarlega drjúgur fyrir liðið á seinni hluta tímabilsins þegar hann skoraði 10 mörk í deildinni.
Breda er í sjöunda sæti deildarinnar fyrir umferð kvöldsins, aðeins fjórum stigum frá öðru sætinu.