Danska knattspyrnufélagið Lyngby vill festa kaup á landsliðsmanninum Andra Lucasi Guðjohnsen, sem leikur með Íslendingaliðinu að láni frá öðru Íslendingaliði, Norrköping.
Nicas Kjeldsen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Lyngby, segir í samtali við danska miðilinn Bold.dk að að félagið vilji gjarna ganga frá kaupum á Andra Lucasi.
Hann hefur staðið sig vel með Lyngby á tímabilinu og skorað átta mörk í 16 leikjum í öllum keppnum.
Kjeldsen segir félögin eiga í viðræðum en að ýmsu þurfi að huga með það fyrir augum að komast að samkomulagi um vistaskipti Andra Lucasar.
Viðræður hafi tafist nokkuð þar sem hann hafi reglulega farið í landsliðsverkefni, þrjú talsins, undanfarna mánuði.
Kjeldsen sagði Lyngby þó ekki stressa sig um of sem stendur þar sem liðið væri á miðju tímabili.