Meistararnir niðurlægðir á útivelli

Leroy Sane klórar sér í hausnum yfir frammistöðu dagsins í …
Leroy Sane klórar sér í hausnum yfir frammistöðu dagsins í leik Bayern München gegn Frankfurt. AFP

Þýsku meistararnir Bayern München steinlágu gegn Frankfurt í fjórtándu umferð þýsku 1. deildarinnar í dag, 5:1.

Bayern hefði með sigrinum í dag komist upp að hlið Bayer Leverkusen í fyrsta sæti deildarinnar en Frankfurt situr í sjöunda sæti deildarinnar með 21 stig eftir viðureign dagsins. 

Omar Marmoush kom heimamönnum í Frankfurt yfir eftir 12 mínútna leik og Ebimbe tvöfaldaði forskotið þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum. Hugo Larsson kom heimamönnum svo í 3:0 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum.

Miðjumaðurinn Joshua Kimmich klóraði svo aðeins í bakkann fyrir gestina með marki undir lok fyrri hálfleiksins og opnaði leikinn örlítið á ný. Þó var ljóst að meistararnir þyrftu að breyta heilmiklu í seinni hálfleiknum.

Ebimbe var hinsvegar aftur á ferðinni í byrjun seinni hálfleiksins og skoraði annað mark sitt í leiknum staðan orðin 4:1 og lengi gat vont versnað þegar Knauff skoraði svo fimmta mark Frankfurt í leiknum og var það síðasti naglinn í kistu meistaranna. Lokatölur 5:1 og algjör niðurlæging fyrir meistarana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert