Myndi ganga til Sádí-Arabíu fyrir 80 milljarða

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid.
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid. AFP/Oscar Del Pozo

Á blaðamannafundi fyrir heimsókn Real Madrid til Real Betis í spænsku 1. deildinni í fótbolta í dag var knattspyrnustjóri gestanna, Carlo Ancelotti, spurður hvort hann myndi taka tilboði frá Sádí-Arabíu fengi hann fyrir um 450 milljónir punda eða um 80 milljarða króna.

Tilefnið er fregnir þess efnis að spænski kylfingurinn, Jon Rahm, fái fjárhæðina á næstu fjórum árum eftir að hann skrifaði undir samning við LIV-mótaröðina í golfi sem sádí-arabíski PIF-fjárfestingarsjóðurinn stendur fyrir.

Ancelotti var fljótur til svars: „Gangandi, ég færi gangandi til Sádí-Arabíu. Það þyrfti ekki að borga flugmiðanna fyrir mig.“

Sagði heiminn vera að breytast

Ítalski knattspyrnustjórinn sagðist svo vera að grínast. Hann sagði heiminn vera að breytast og að hann muni halda áfram að breytast.

Aðspurður sagði hann að enginn hafi haft samband við sig frá Sádí-Arabíu. Hann sagðist lifa í nútíðinni og að nútíðin væri góð. Ancelotti sagði að ef haft yrði samband sagðist hann eiga peninga og að hann hafi aldrei horft á peninga sem mikilvæga, það hafi ekki verið í hans uppeldi.

„Kannski fer ég einn daginn til Sádí-Arabíu en í augnablikinu líður mér vel hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert