Engir áhorfendur verða leyfðir á knattspyrnuleikjum í Grikklandi fram í miðjan febrúar, samkvæmt tilkynningu frá grísku ríkisstjórninni í dag.
Ástæðan er sú að á fimmtudagskvöldið slasaðist lögregluþjónn alvarlega á leik í blaki milli Olympiacos og Panathinaikos þegar flugeldi var skotið í hann. Leiknum var hætt og samkvæmt grískum fjölmiðlum hafa meira en 400 manns verið handteknir í kjölfar atviksins.
Félögin tvö sem eiga í hlut eru stórveldi í gríska fótboltanum í karlaflokki og það er ástæða þess að knattspyrnan þarf að taka út refsingu fyrir atvik í annarri íþrótt.
Öllum leikjum í gríska fótboltanum sem fram áttu að fara um helgina var aflýst.
Fjórir Íslendingar leika með grískum liðum, Hörður Björgvin Magnússon með Panathinaikos, Ögmundur Kristinsson með Kifisias, Guðmundur Þórarinsson með OFI Krít og Samúel Kári Friðjónsson með Atromitos.