Leik hætt eftir að stuðningsmaður lést

Stuðningsmenn voru beðnir um að yfirgefa völlinn í Granada í …
Stuðningsmenn voru beðnir um að yfirgefa völlinn í Granada í gær. AFP/Jorge Guerrero

Leik Granada og Athletic Bilbao í 16. umferð spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu var hætt í gær eftir að stuðningsmaður Granada lést í stúkunni.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en 18. mínútur voru liðnar af leiknum þegar hann var stöðvaður.

Athletic Bilbao leiddi þá 1:0 en rúmlega 20 mínútum eftir að leikurinn var stöðvaður yfirgáfu leikmenn beggja liða völlinn og stuðningsfólk liðanna var sömuleiðis beðið um að yfirgefa leikvanginn.

Leikurinn fer fram í kvöld

„Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina hins látna,“ segir í tilkynningu Granada á X.

„Ákveðið var að hætta leik eftir að stuðningsmaður Granda lést í stúkunni,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Leikur liðanna fer fram í Granada í kvöld og hefst hann klukkan 20 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert