Knattspyrnan í Tyrklandi hefst á ný næsta þriðjudag eftir að öllum leikjum í landinu var frestað um óákveðinn tíma eftir árásina á dómarann á mánudagskvöldið.
Forseti tyrkneska knattspyrnusambandsins skýrði frá þessu í dag en forseti Ankaragücü, Faruk Koca, var handtekinn eftir að hafa ráðist á dómarann Halil Umut Melel og slegið hann niður, rétt eftir að leikur liðsins gegn Rizespor í úrvalsdeildinni var flautaður af.
Meler fór heim af sjúkrahúsi í morgun eftir að hafa legið þar í hálfan annan sólarhring eftir atvikið en hann var bólginn í andliti eftir árásina.
Engir leikir fara fram í Tyrklandi í þessari viku og komandi helgi vegna árásarinnar.