City með fullt hús – Young Boys í Evrópudeildina

Kalvin Phillips fagnar marki sínu í kvöld.
Kalvin Phillips fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Andrej Isakovic

Manchester City hafði betur gegn Rauðu stjörnunni, 3:2, þegar liðin áttust við í lokaumferð G-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í Belgrad í Serbíu í kvöld.

Þar með luku Evrópumeistarar Man. City keppni í riðlinum með fullu húsi stiga, 18, eftir leikina sex.

Hinn tvítugi Micah Hamilton kom gestunum frá Manchester í forystu með sínu fyrsta marki fyrir liðið á 19. mínútu.

Norðmaðurinn tvítugi, Oscar Bobb, tvöfaldaði forystuna eftir rúmlega klukkutíma leik áður, einnig með sínu fyrsta marki fyrir liðið, en Hwang In-Beom minnkaði muninn fyrir Rauðu stjörnuna.

Kalvin Phillips kom Man. City í 3:1, sömuleiðis með sínu fyrsta marki fyrir liðið, fimm mínútum fyrir leikslok áður en Aleksandar Katai minnkaði muninn aftur niður í eitt mark í uppbótartíma.

Þar við sat og hafnar Rauða stjarnan í neðsta sæti riðilsins.

Í hinum leik riðilsins lagði RB Leipzig lið Young Boys að velli, 2:1.

Markalaust var í leikhléi en Benjamin Sesko braut ísinn fyrir Leipzig á 51. mínútu.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Ebrima Colley metin fyrir Young Boys en aftur leið ekki á löngu þar til næsta mark leit dagsins ljós.

Það skoraði Emil Forsberg og tryggði heimamönnum sigur.

Leipzig hafnaði í öðru sæti riðilsins og var þegar búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Young Boys hafnaði í þriðja sæti og fer í Evrópudeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert