Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Bayern München, sagði eftir sigurinn á Manchester United á Old Trafford í gærkvöld, 1:0, að hann fyndi til með Erik ten Hag, kollega sínum hjá enska félaginu.
Úrslitin þýða að United er úr leik í Meistaradeildinni og kemst heldur ekki í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið endaði í neðsta sæti riðilsins, á eftir Bayern, FC Köbenhavn og Galatasaray.
„Ég er yfirleitt auðmjúkur í garð þjálfara andstæðinganna en við reynum að sjálfsögðu allir að vinna okkar leiki. Það er takmarkið á okkar stigi íþróttarinnar, en að sjálfsögðu finn ég til með honum,“ sagði Tuchel við BBC eftir leikinn.
„Hann fór í afar mikilvægan leik án margra lykilmanna. Þá skorti sjálfstraust og það var ekki nægileg breidd á bekknum. Þetta er ekki auðvelt en ég er viss um að hann veit hvað hann á að gera.
Hann þarf engin ráð frá mér eða klapp á öxlina. Hann er nægilega reyndur til að komast í gegnum þetta. Sjálfum leið mér ekki vel á laugardaginn [þegar Bayern tapaði 5:1 fyrir Eintracht Frankfurt] og stundum er maður afar einmana í þessu starfi,“ sagði Thomas Tuchel.