Lærisveinar Rooneys lögðu Rúnar og félaga

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Birmingham City lagði Cardiff City að velli, 1:0, þegar liðin áttust við í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Rúnar Alex Rúnarsson lék allan leikinn í marki Cardiff en gat ekki komið í veg fyrir sigurmark Juninho Bacuna, sem kom í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Lærisveinar Waynes Rooneys í Birmingham unnu þar með kærkominn sigur eftir að hafa gengið afleitlega í kjölfar þess að hann tók við stjórnartaumunum fyrir tveimur mánuðum síðan.

Birmingham fór með sigrinum upp í 16. sæti, þar sem liðið er með 26 stig.

Cardiff er í tíunda sæti með 30 stig.

Leicester og Ipswich að stinga af

Ótrúlegt gengi Leicester City heldur þá áfram en í kvöld hafði liðið betur gegn Millwall, 3:2, á heimavelli.

Jannik Vestergaard, Patson Daka og Ricardo Pereira skoruðu mörk Leicester.

Tom Bradshaw og Kevin Nisbet skoruðu mrök Millwall.

Leicester endurheimti toppsætið af Ipswich Town með sigrinum og er nú með 52 stig, einu meira en Ipswich Town sæti neðar.

Langt er í næstu lið og virðast bæði liðin því stefna hraðbyri beint upp í ensku úrvalsdeildina.

Leeds United er í þriðja sæti með 41 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert