Máttu sætta sig við töp fyrir stórveldum

Natasha Anasi-Erlingsson lék allan leikinn fyrir Brann gegn Lyon í …
Natasha Anasi-Erlingsson lék allan leikinn fyrir Brann gegn Lyon í kvöld. Ljósmynd/Brann

Íslensku landsliðskonurnar Guðrún Arnardóttir og Natasha Anasi-Erlingsson voru í eldlínunni með félagsliðum sínum Rosengård og Brann þegar þau mættu sannkölluðum stórveldum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

Guðrún lék allan leikinn í vörn Rosengård þegar liðið tók á móti ríkjandi Evrópumeisturum Barcelona í Malmö í A-riðli.

Lauk leiknum með öruggum 6:0-sigri Börsunga.

Í hinum leik riðilsins vann Benfica góðan 1:0-sigur á Eintracht Frankfurt.

Svava Rós Guðmundsdóttir lék ekki með Benfica vegna meiðsla.

Barcelona er á toppi riðilsins með fullt hús stiga, níu, eftir þrjá leiki og Benfica er sæti neðar með sex stig. Rosengård rekur lestina án stiga.

Brann enn í góðri stöðu

Natasha lék líkt og Guðrún allan leikinn í vörn Brann þegar liðið heimsótti áttfalda Evrópumeistara Lyon til Frakklands í B-riðli.

Lauk þeim leik með 3:1-sigri Lyon.

Lyon er á toppnum með níu stig og Brann er í öðru sæti með sex.

St. Pölten og Slavia Prag, sem gerðu markalaust jafntefli í hinum leiknum, eru í þriðja og fjórða sæti með eitt stig hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert