PSG komst áfram – Evrópuævintýri Newcastle á enda

Fabian Schar, varnarmaður Newcastle, var svekktur í leikslok í kvöld.
Fabian Schar, varnarmaður Newcastle, var svekktur í leikslok í kvöld. AFP/Paul Ellis

Sex leikir fóru fram í lokaumferð Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld og var spennan mikil á flestum vígstöðvum. Fyrirfram var spennan mest í F-riðli þar sem þrjú lið börðust um að fylgja Borussia Dortmund áfram í 16-liða úrslitin. Þá spiluðu Porto og Shakhtar Donetsk hreinan úrslitaleik í H-riðli um að fylgja Barcelona áfram.

Atlético Madrid tryggði sér sigur í E-riðli

Í E-riðli tók Atletico Madrid á móti Lazio í leik þar sem sigurliðið myndi tryggja sér efsta sæti riðilsins. Bæði þessi lið voru komin áfram fyrir leikinn en buðu þó upp á skemmtilegan leik sem endaði með sigri heimamanna, 2:0.

Antoine Griezmann skoraði eina mark fyrri hálfleiksins með góðu skoti á 6. mínútu leiksins eftir sendingu frá Samuel Lino. Samuel Lino skoraði svo sjálfur annað mark heimamanna á 51. mínútu.

Samuel Lino skoraði og lagði upp mark fyrir Atlético Madrid …
Samuel Lino skoraði og lagði upp mark fyrir Atlético Madrid í kvöld. AFP/Thomas Coex

Í hinum leik riðilsins tók Celtic á móti Feyenoord. Heimamenn í Celtic tóku forystuna á 33. mínútu þegar Luis Palma skoraði úr vítaspyrnu. Gestirnir jöfnuðu á 82. mínútu með marki frá Yankubu Minteh. Heimamenn náðu þó að klóra fram sigur á lokamínútum leiksins með marki frá Gustaf Lagerbielke.

Lokastaða E-riðils:

  1. Atlético Madrid
  2. Lazio
  3. Feyenoord
  4. Celtic

PSG fylgdi Dortmund áfram – AC Milan í Evrópudeildina

Í F-riðli var Dortmund komið áfram fyrir leiki kvöldsins en PSG, Newcastle og AC Milan börðust um að fylgja þýska liðinu upp úr riðlinum.

Dortmund tók á móti PSG í Þýskalandi og þrátt fyrir fjölmörg færi á báða bóga var markalaust þegar flautað var til hálfleiks. Karim Adeyemi kom heimamönnum yfir á 51. mínútu en Warren Zaire-Emery jafnaði fyrir gestina á 56. mínútu með góðu skoti. Það reyndist lokamark leiksins og fylgir PSG því Dortmund upp úr riðlinum í 16-liða úrslitin.

Warren Zaire-Emery fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Dortmund í kvöld.
Warren Zaire-Emery fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Dortmund í kvöld. AFP/Franck Fife

Newcastle tók þá á móti AC Milan í hinum leik riðilsins. Joelinton kom heimamönnum yfir með stórglæsilegu skoti á 33. mínútu leiksins. Christian Pulisic jafnaði þá fyrir gestina á 59. mínútu áður en Samuel Chukwueze kom gestunum yfir á 84. mínútu. Með þessu marki tryggði AC Milan veru sína í Evrópudeildinni eftir áramót en Newcastle leikur ekki fleiri evrópuleiki á þessu tímabili.

Lokastaða F-riðils:

  1. Dortmund
  2. PSG
  3. AC Milan
  4. Newcastle

Ótrúlegur átta marka leikur á Drekavöllum

Í H-riðli var hreinn úrslitaleikur á milli Porto og Shakhtar Donetsk þar sem vitað var fyrir leik að sigurliðið myndi fylgja Barcelona upp úr riðlinum. Galeno kom heimamönnum í Porto yfir á 9. mínútu áður en Danylo Sikan jafnaði á 29. mínútu. Galeno bætti svo við öðru marki sínu á 43. mínútu með flottu skoti. Galeno lagði þá næst upp mark fyrir Mehdi Taremi á 62. mínútu. Stephen Eustaquio varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 73. mínútu og kom þannig Shakhtar Donetsk aftur inn í leikinn.

Gamla brýnið Pepe var ekki á því máli að gefa Úkraínumönnunum einhverja von en hann skoraði eftir hornspyrnu á 76. mínútu og kom heimamönnum aftur í tveggja marka forystu. Francisco Conceicao skoraði síðan með sinni fyrstu snertingu á 82. mínútu og jók þannig muninn í þrjú mörk, 5:2. Mörkin urðu átta þegar Eguinaldo skoraði fyrir gestina á 88. mínútu leiksins.

Porto fer því áfram í 16-liða úrslit en Shakhtar Donetsk fer í Evrópudeildina.

Galeno var frábær í liði Porto í kvöld en hann …
Galeno var frábær í liði Porto í kvöld en hann skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö fyrir liðsfélaga sína. AFP/Miguel Riopa

Í hinum leik riðilsins tók Royal Antwerp á móti Barcelona. Fyrir leikinn var Barcelona búið að vinna riðilinn og Royal Antwerp var stigalaust á botni riðilsins.

Leikurinn byrjarði með látum þegar að Arthur Vermeeren skoraði fyrir heimamenn á 2. mínútu. Ferran Torres jafnaði hinsvegar fyrir gestina á 35. mínútu eftir sendingu frá ungstirninu Lamine Yamal. Vincent Janssen kom heimamönnum aftur í forystu á 56. mínútu með góðu skoti. Marc Guiu jafnaði fyrir gestina á 91. mínútu en heimamenn náðu að skora sigurmark á 92. mínútu þegar George Ilenikhena skoraði með góðu skoti. Þrátt fyrir ósigurinn þá vann Barcelona riðilinn og Antwerp endaði í neðsta sæti.

Lokastaða H-riðils:

  1. Barcelona
  2. Porto
  3. Shakhtar Donetsk
  4. Antwerp
Meistaradeildin í beinni opna loka
kl. 21:59 Leik lokið Þá er öllum leikjum kvöldsins lokið að þessu sinni, takk fyrir kvöldið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert